Fyrsta vikan hér í Bandaríkjunum liðin. Það er svo margt búið að gerast á stuttum tíma. Ég trúi ekki að ef ég hefði ekki fengið þessa fjölskyldu þegar ég fékk hana væri ég ennþá heima.
Eftir að við lentum í New York þurftum við að fara á hótel rétt hjá flugvellinum og bíða þar eftir rútunum sem fóru með okkur á komunámskeiðin. Við vorum flest að fara á sitthvora staði þannig við fórum í rúturnar á mismunandi tímum og ég var svo heppin að þurfa að bíða til klukkan 7 á hótelinu (hinir íslendingarnir voru allir farnir klukkan 5). En það var allt í lagi, ég fann skiptinema frá Brasilíu og Þýskalandi til að drepa tímann með. Fékk svona smá tilfinningu fyrir því hvernig það hefði verið ef ég hefði valið land með tungumáli sem ég skildi ekki til að fara til. Þetta voru tveir þriggja manna hópar og þau töluðu mjög mikið bara sín á milli í sínu eigin tungumáli.
Komunámskeiðið var skárra, þá voru ekki eins margir frá sama landinu svo fólk neyddist til að tala meira á ensku. Þetta var bara einn dagur þar sem þau fóru yfir helstu atriðin sem við þurfum að hafa í huga meðan við erum hérna, reglur AFS o.s.fr. Lorah fjölskldan kom svo að sækja mig á föstudaginn. Þau keyrðu í gegnum Philadelphiu og sýndu mér aðalatriðin á leiðinni heim.
Tara og Bill voru með planaða vikuferð á ströndinni í New Jersey svo við fórum beint þangað á laugardeginum. Það var ágætt að fá smá tíma til að kynnast þeim án neins stress. Foreldrar Bills voru með okkur frá byrjun og svo komu foreldrar Töru seinna í vikunni og voru seinustu 2 dagana. Það er víst mjög algengt að öll fjölskyldan komi og kíki allavega eitthvað smá við þegar einhver leigir strandhús þar sem þau eru dýr og auðvitað eftirsóknarvert að vera á ströndinni. Það rigndi frekar mikið en það var bara ágætt. Það var samt alveg heitt, bara ekki alveg jafn mikil steik og það var á sóldögunum. Ég brann á öxlunum frekar snemma þannig það var ágætt að geta verið í stuttermabol eða þunnri peysu án þess að kafna.
Við komum heim á laugardaginn og þá kíktum við Tara í mallið sem er næst okkur, sem er með H&M og Forever21 og fleiri skemmtilegar búðir svo ég get ekki kvartað. Á sunnudaginn fór ég með þeim í kirkju, sem var allt í lagi. Þetta var óformlega týpan þar sem fólk syngur og klæðist gallabuxum… Svo fórum við í búð sem heitir Kohl til að finna bakpoka og annað sem Carter þurfti fyrir nýju daggæsluna sem hann er að fara í. Ég keypti líka hlaupaskó og eitt skópar fyrir veturinn.
Svo í dag fór ég með Töru að skrá mig í skólann. Konan í afgreiðslunni reyndi að setja mig í 11. bekk en ekki 12. (sem er senior árið) af því að það stóð á einhverju AFS skjali að ég myndi útskrifast úr Kvennó 2013 og hún hélt því fram að það þýddi að ég hefði bara lokið 10. bekk heima og þau “do not allow skipping grades”. Skólakerfin eru samt ekki beint sambærileg þannig þetta var frekar kjánalegt en hún vissi það örugglega ekkert og ég held að við höfum alveg náð að útskýra stöðuna og samkvæmt aldri ætti ég að vera senior þannig ég held við höfum náð að redda þessu.
Ég hitti líka Julie, trúnaðarmanninn minn, í dag. Hún er semsagt persónan sem ég á að tala við ef það er eitthvað að eða ég hef einhverjar spurningar.
Á morgun er ég svo að fara með Töru til Philadelphiu. Það tekur svona einn til einn og hálfan tíma að keyra þangað frá Telford (smábænum sem ég bý í). Hún er enskukennari og þarf að fara að velja hvaða skóla hún vill kenna í á næsta ári. Skólarnir í Philadelphiu eru víst frekar slæmir. Allavega almennings skólarnir. Krakkarnir sem fara í þá koma margir frá fátækum fjölskyldum þar sem menntun er bara ekki aðalmálið (því verra sem þú ert staddur fjárhagslega, því meira af ókeypis hlutum færðu frá ríkinu) þannig margir af krökkunum eru langt á eftir því viðmiði sem er fyrir þeirra aldur. Krakkarnir eru líka að koma með vopn í skólann þannig það er búið að setja upp málmleitar tæki eins og eru á flugvöllum í flesta skólanna. Einn sjálfboðaliðinn sem ég hitti á komunámskeiðinu býr í Philadelphiu og hún sagði að henni hafi langað að taka að sér skiptinema (það eiga ennþá hellingur af krökkum eftir að fá fjölskyldu) en hún hafi ekki mátt það af því að “people were getting shot” í sumum skólunum. Örugglega ekkert algengt en allavega voru skólarnir ekki dæmdir nógu öruggir fyrir skiptinema af AFS. Glöð að það sé allavega ekki vandamál í skólanum sem ég fer í…